
Skjaldamerki Grindavíkurbæjar var hannað af Kristínu Þorkelsdóttur árið 1986. Verk Kristínar eru landsmönnum vel kunnug en hún hannaði fjöldamörg merki, auglýsingar og umbúðir, að ógleymdum peningaseðlum landsins.
Skjaldamerkið vísar í hafið sem Grindvíkingar byggja afkomu sína á og landnámsmanninn Hafur-Björn, sem nam land í Grindavík ásamt föður sínum og bræðrum. Í greinargerð um hönnun skjaldamerkisins frá árinu 1986 segir meðal annars:
,,Blár litur hafsins í grunni með hvítum ölduföldum er sá grundvallarveruleiki, sem Grindavík byggist á, en hafurinn er tákn þeirrar frjósemi og búhygginda, sem skila Grindvíkingum til þroska og þróunar í fortíð, nútíð og framtíð. Þeir sem vilja, mega gjarnan láta hvítar rendurnar í grunni vísa til fyrri hluta nafnsins Grindavík. Merkið er fallegt og sterkt í formi og eftirminnilegt við fyrstu sýn, og í sparibúningi sínum í lit gleður það augað.”
(Heimild: Heimilisiðnaðarfélag Íslands)