SJÓVÁ REFSAR FÍB VEGNA GAGNRÝNI Á ARÐGREIÐSLUR

  "Lífeyrissjóðir launafólks eiga 48,3% hlutafjár í Sjóvá. Það skýtur óneitanlega skökku við að stjórnendur fyrirtækis í eigu almennings hafi ekki þrek til að þola gagnrýni."

  Frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda:

  Sjóvá rifti samningi við FÍB-aðstoð aðeins nokkrum vikum eftir að FÍB (Félag íslenskra bifreiðaeigenda) gagnrýndi tryggingafélagið fyrir milljarða króna greiðslur til hluthafa. FÍB-aðstoð hefur annast Vegaaðstoð Sjóvár síðan 2007 og engan skugga borið á þau viðskipti. Engar skýringar fylgdu fyrirvaralausri uppsögninni.

  Ekki er hægt að álykta annað en að stjórnendur Sjóvár hafi sagt viðskiptunum upp til að refsa FÍB fyrir gagnrýni á 5 milljarða króna greiðslur til hluthafa tryggingafélagsins. Uppsögnin barst í lok október, aðeins fjórum vikum eftir að FÍB birti áskorun til Sjóvár um að skila ofteknum iðgjöldum til viðskiptavina frekar en láta þau renna í vasa hluthafa.

  Sjóvá greiddi fasta upphæð mánaðarlega til FÍB-aðstoðar fyrir að sjá um Vegaaðstoð fyrir félaga í Stofni. Samningurinn var hagkvæmur fyrir báða aðila, Sjóvá þurfti ekki að reka sína eigin vegaaðstoð, greiðslan fyrir þjónustu FÍB-aðstoðar létti undir fastakostnaði og munaði um hana í þeim rekstri. FÍB- aðstoð er í boði fyrir félagsmenn í FÍB, sem eru rúmlega 18 þúsund talsins.

  Stjórn Sjóvár, undir formennsku Björgólfs Jóhannssonar, varð ekki við áskorun FÍB. Á 10 mínútna löngum hluthafafundi Sjóvár 19. október síðastliðinn var samþykkt að greiða hluthöfum félagsins 2,5 milljarða króna til að „laga fjármagnsskipan félagsins“ eins og sagði í fundargerðinni. Á mæltu máli þýddi þetta orðalag að Sjóvá hafði safnað mun meiri fjármunum í sjóði sína en þurfti til að standa undir tryggingastarfseminni. FÍB taldi aftur á móti eðlilegra að skila þessum ofteknu fjármunum til viðskiptavina félagsins.

  Lífeyrissjóðir launafólks eiga 48,3% hlutafjár í Sjóvá. Það skýtur óneitanlega skökku við að
  stjórnendur fyrirtækis í eigu almennings hafi ekki þrek til að þola gagnrýni.

  Auglýsing