SJÁLAND ER “ERLENDIS”

    Ég heyrði Björgvin Halldórsson vera að lýsa einhverju sem hann sagði að væri “erlendis” og skildi það þannig að hann meinti að eitthvað væri á pari við eitthvað sem minnti hann á að væri erlendis m.ö.o. flott og framandi og umfram allt ekki sveitó. Ég hef tekið upp þetta orð og nota gjarnan þegar mér finnst eitthvað vera vel gert og gæti sómt sér vel úti í hinum stóra heimi. Gott orð.

    Ég fór að borða í fyrsta skipti á stað sem er staðsettur við sjóinn úti í Garðabæ og heitir Sjáland. Ég get með góðri samvisku sagt að þessi staður sé erlendis. Bæði aðkoma, húsakynni, staðsetning við sjóinn, útsýni, innréttingar, þjónusta og matur. Passaði allt saman. Góð stemming og sanngjarnt verðlag. Get ekki sett út á neitt. Fengum okkur nautacarpatsjó (afsakið réttritunina), þorskhnakka og lambahryggsteik. Flott uppsett og bragðgott.

    Það er gaman að sjá hvað íslenskum veitingahúsum hefur farið fram og matreiðsla er orðinn vönduð miðað við þegar ég var að læra kokkinn. Þá var vínarsnitsel og nautatorneidó það flottasta, þverskorin ýsa eða pönnusteikt í raspi með smjöri. Sá varla þorsk á borðum.

    Ég óska eigendum til hamingju og alls hins besta.

    Auglýsing