SÍÐASTA FÆRSLA BRYNJARS

    Brynjar Níelsson fyrrum alþingismaður má ekki lengur vera með ábyrgðarlaust hjal sitt og skop á Facebook þar sem það samrýmist ekki nýju starfi hans sem aðstoðarmaður Jóns dómsmálaráðherra. Veldur þetta vonbrigðum vina hans á vefnum sem margir syrgja rafrænt brotthvarfi hans. Síðasta færsla Brynjars birtist fyrir nokkrum dögum og er svona:

    “Reiði og heift er nokkuð áberandi hjá þeim sem telja sig vera betri, réttlátari og sanngjarnari en aðrir. Nú beinist reiðin einkum að Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og er henni ekki vandaðar kveðjurnar þótt hún hafi náð fram meira af stefnumálum vinstri manna en aðrir. Meira að segja pólitískum andstæðingum hennar, eins og mér, þykir nóg um þessar óvönduðu kveðjur.

    Að því að ég hef meira innsæi og er næmari á fólk en aðrir, og eru Bubbi, Illugi Jökuls og Hallgrímur Helga þar með taldir, get ég sagt ykkur heilmikið um Katrínu Jakobsdóttur. Það helsta að hún er afar geðsleg og umfram allt vel gefin, þokkalega skynsöm og með góða dómgreind þegar á reynir. En hún er ekki fullkomin. Hún er full brosmild og hress á köflum og svo er hún alltof mikill sósíalisti, sem er kannski ekki beinlínis galli en verður að teljast sérstakt miðað við aðra eiginleika.
    Þessi greining mín á forsætisráðherra er vísindalegri og nákvæmari en þeirra sem þykjast vita hvernig veðrið og hitastigið verður á jörðinni næstu hundrað árin og jafnvel lengur.”
    Auglýsing