Á síðasta fundi menningar – íþrótta og tómstundarráðs Reykjavíkurborgar var ákveðið að halda ekki áfram með miðnæturopnun Laugardalslaugar enda var kostnaðurinn langt umfram þær 6 milljónir sem áætlað var til verksins. Svona var þetta afgreitt:
–
“Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra þróunar og reksturs dags. 25. janúar 2023 vegna miðnæturopnunar í Laugardalslaug. Fulltrúar meirihluta Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar leggja fram eftirfarandi bókun: Meirihlutinn þakkar fyrir minnisblað um framkvæmd tilraunaverkefnis um miðnæturopnun í Laugardalslaug á fimmtudögum sem stóð til áramóta. Verkefnið mæltist vel fyrir einkum hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára en því fylgdu ýmsar áskoranir varðandi starfsmannahald og kostnaður var meiri en lagt var upp með. Ekki er fjármagn til að halda verkefninu áfram að sinni en eins og kemur fram í minnisblaðinu væri áhugavert að gera tilraun með miðnæturopnun í afmarkaðan tíma og tengja þá jafnvel við viðburðahald á sameinuðu sviði menningar og íþrótta, nýta sköpunarkraft starfsfólks Hins Hússins o.s.frv.”