PÓLITÍK EKKI FEGURÐARSAMKEPPNI

    Ragnar Önundarson Facebookstjarna og fyrrum bankastjóri á hugleiðingu helgarinnar þar sem hann segir áhættusamt fyrir unga stjórnmálamenn að toppa of snemma:

    “Fólk er í líkamlegu hámarki um þrítugt, en andlegu um sextugt. Ef það væri svo að pólitik snerist um líkamlegt atgervi, kjörþokkinn væri kynþokki, þá væri vafalaust rétt að gera kjör til æðstu embætta flokkanna að ,,fegurðarsamkeppni”. Frambjóðendur mundu þá væntanlega sýna líkamlegt atgervi sitt með því að koma fram á sundfötum, en segja sem minnst, eins og tíðkast í slíkum keppnum. Mætti þá t.d. gera ráð fyrir að vörpulegasti karlinn yrði formaður, glæsilegasta konan varaformaður og sætasti krakkinn ritari.

    Pólitík má hins vegar ekki vera tóm auglýsinga- eða sýndarmennska. Hún verður að hafa málefnalegt innihald, snúast um það hvernig við þróum samfélagið áfram í bærilegri innbyrðis sátt og sátt við náttúruna, sem allt byggist á. Leiðtogar verða að vera óháðir hagsmunum, stefnufastir og hafa velferð almennings í huga. Ef flaskað er á þessu hefur það afleiðingar, kjósendur sjá í gegnum yfirborðsmennskuna og snúa sér annað. Reynslan er ólygnust.”

    Auglýsing