SAGÐI AF SÉR EN KOM SVO AFTUR

  Sérstök uppákoma varð á síðasta aðalfundi Eyþing, Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu, sem haldinn var á Siglufirði 10-11 nóvember . Þar tók Arnór Benónýsson leikari og oddviti Þingeyjarsveitar til máls og sagði sig úr fagráði menningar, sagði af sér sem varaformaður stjórnar Eyþings og sagði sig úr stjórn Eims og óskaði sérstaklega eftir því að þetta yrði fært til bókar. Þá sagðist hann vera búinn að vera í pólitík í 30 ár og síðastliðið eitt og hálft ár verið það ógeðfelldasta á hans ferli og tiltók atburði í kringum starfslokasamning menningarfulltrúa. Hann sagðist ekki vilja sinna embættum sem stjórnin hefði falið honum en hann sagðist sitja áfram í stjórn Eyþings en í stjórnarandstöðu nema að fundurinn myndi lýsa vantrausti á hann.

  En skjótt skipast veður í lofti. Á fundi Eyþing 1. desember var eftirfarandi bókað:

  Á aðalfundi Eyþings 10. – 11. nóvember sl. sagði Arnór af sér sem varaformaður í stjórn, formaður fagráðs menningar og stjórnarsetu í Eim. Með erindinu dregur Arnór afsagnir sínar til baka og óskar eftir að stjórn Eyþings samþykki það. Jafnframt leggur Arnór fram eftirfarandi bókun:
  Í framhaldi af erindi mínu vil ég lýsa því yfir að orð mín á aðalfundi 10. og 11. nóvember beindust alls ekki að samstarfsfólki mínu í stjórn eða einstaklingum.

  Stjórn samþykkti einróma erindi Arnórs.

  Auglýsing