“Rifinn liðþófi í hné er ekki góð skemmtun. Læknir ráðlagði sjúkraþjálfun í sex mánuði, æfingahjól og lyftingar með, bara ekki þungt. Slepp vonandi við aðgerð,” segir Stefán Máni rithöfundur og óskar eftir ráðleggingum þeirra sem í hafa lent.
Orsakir
Algengast er að rífa liðþófa þegar viðkomandi er með fullan þunga á hnénu, það létt bogið og samtímis verður snúningur í hnéliðnum. Við þessar aðstæður klemmist liðþófinn á milli lærbeins og leggbeins og getur rifnað. Innri liðþófi verður mun oftar fyrir meiðslum en sá ytri. Liðþófameiðsli hjá börnum eru sjaldgæf.
Einkenni
Verkir þegar þrýst er á liðbilið og við snúning í hnénu. Verkirnir koma oft skyndilega við ákveðnar hreyfingar og getur hnéð bólgnað upp. Ef um smámeiðsli er að ræða, getur það jafnað sig með tímanum. Hinsvegar ef um stærri rifur er að ræða, þá getur flipi af liðþófanum klemmst í hnénu og það valdið því að hnéð læsist eða viðkomandi missir kraft í hnénu í augnablik. Ef einkenni hafa verið lengi án meðferðar er hætta á vöðvarýrnun í lærum.