RIFBEINSBROTNAÐI – LÆKNIRINN FANN KRABBA

  Garðvinna með barnabarninu heitir þessi drónamynd Steina pípara.

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Nú um áramótin líta menn gjarnan yfir farinn veg og spyrja; „Hvernig  var árið fyrir mig?“ Árið var mér að mörgu leyti hagsælt þó ég hafi þurft að gæta mín sérstaklega vel gagnvart kóvinu. Samskipti við vini mína og ættingja eru meira í gegnum síma en áður. Þegar ég fer með vinum mínum í ljósmyndaferðir eða veiðitúra, deilum við ekki bíl og gætum vel að fjarlægðarmörkum.

  Það sem ég hef lært af lífinu er að flestar aðstæður bjóða upp á sína möguleika. Ég fyllti gróðurskálann við húsið mitt af plöntum, aðallega tómötum. Gerði tilraun með ræktun bláberja sem gekk ekki eins vel en jarðaberjaræktin gekk glimrandi vel.

  Þá eru samskipti mín við fuglana sem bíða eftir matargjöfum daglega og kvarta ef matur er ekki borinn fram á réttum tíma.

  Happdrættisvinningurinn sem ég fékk var þó þegar ég rifbeinsbrotnaði. Já það var stórkostlegt lán. Einnig að hafa glöggan lækni sem sá krabba á byrjunarstigi á röntgen myndinni sem tekin var, krabbamein sem hefði dregið mig til dauða ef það hefði uppgötvast síðar.

  Mesta lán mitt er nánir ættingjar mínir og vinir mínir, sem ég tala við suma oft á dag. Á komandi sumri geta samskiptin við þá verið enn betri og ég lít sumarið björtum augum, með ljósmynda- og veiðiferðum um fjöll og firnindi. Ævintýri lífsins heldur áfram.

  Auglýsing