RÉTTURINN TIL VATNSINS Í HÆTTU

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Í græðgisvæðingu nútímans á allt að seljast. Áður fyrr hjálpuðu menn hver öðrum án þess að senda reikning en nú er allt metið til peninga. Enn fáum við að anda að okkur loftinu, en það kemur til mála að græðgisvæða vatnið sem er okkur álíka mikilvægt.

  Það er guðsþakkarvert að mönnum hafi ekki tekist að afnema réttinn til vatnsins sem er í núgildandi vatnalögum frá 1923. Ef maður hefur ekki vatn í eigin landi þá getur maður sótt það í annars manns land enda greiði maður bætur fyrir raskið. Þá eru ákvæði um vatnsveitur þar sem manni er gert að greiða kosnaðarverð af þeim ef maður hefur meira hagræði af framkvæmdum en sem nemur kostnaði.

  Nú eru útlendingar að kaupa upp jarðir hér og einhver sagði að þeir væru byrjaðir að hækka gjaldskrár vatnsveitna sem lagðar hafa verið í samvinnu fleiri. Ekki hef ég sannreynt sannleiksgildið en möguleikinn er fyrir hendi. Þá getum við þakkað að hafa slíkt ákvæði í lögum þannig að Íslendingar geti drukkið sitt vatn án þess að auðga erlenda sem íslenska auðmenn.

  Það eru fleiri réttindi sem við höfum haft frá upphafi eins og frjálsa för um landið sem útlendingar gætu svift okkur ef við setjum ekki reglur sem stemma stigu við slíku.

  Auglýsing