Verjendur frá 25 þúsund krónur á tímann fyrir undirbúning og greinargerðir svo og vegna setu í réttarhöldum. Miðað við 5 tíma á dag í 5 daga réttarhöldum fær hver verjandi 625 þúsund krónur. Fyrir alla 25 verjendurnar gerir þetta 15,6 milljónir. Þar að auki má gera ráð fyrir að meðaltali 10 tímum í undirbúning fyrir hvern og einn, eða samtals 6,2 milljónir. Semsagt tæplega 22 milljónir í kostnað við verjendur, og við bætist virðisaukaskattur þannig að samtals verður kostnaðurinn 27 milljónir. Ríkið borgar þennan kostnað – það er skattgreiðendur – þar sem sakaðir menn eiga rétt á því að fá skipaðan verjanda sér að kostnaðarlausu.
Þá er eftir kostnaður við opinbera starfsmenn, lögreglu, saksóknara og annað fylgdarlið. Að jafnaði kostar það ríkið um 60 þúsund krónur á dag að hafa starfsmann í vinnu. Ljóst er að lögregla og saksóknari hafa verið vikum saman í undirbúning réttarhaldanna, þannig að dvölin í Gullhömrum er bara lokahnykkurinn. Óhætt er að ætla að kostnaðurinn við ríkisstarfsmennina sé um 15 milljónir króna í þessu máli.
Og þá er eftir húsaleiga í Gullhömrum, kostnaður við spítaladvöl, gæsluvarðhald og sitthvað annað smálegt.
Allt í allt er því óhætt að reikna með að þetta uppgjör smákrimma í kjallaranum í Bankastrætisklúbbnum muni kosta ríkissjóð um 38 milljónir króna. Ljóst er að enginn þeirra mun taka þátt í þeim kostnaði enda er þeim það ekki skylt. Ríkið borgar meira að segja skaða- og miskabætur sem kunna að verða dæmdar.