PRESTUR KALLAÐI ÚT BJÖRGUNARSVEIT TIL AÐ FLYTJA

  Séra Önundur kveður Breiðabólstað.

  Séra Önundur Björnsson, sem lætur nú af störfum sem sóknarprestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, stóð frammi fyrir miklum vanda þegar hann var að pakka saman búslóð úr þriggja hæða húsi eftir 22 ára búsetu í Hlíðinni. Hann kallaði út björgunarsveit og segir:

  “Þakkir til björgunarsveitarinnar Dagrenningar í Rangárþingi Eystra. Undanfarna daga/vikur höfum við hér á Breiðabólstað í Fljótshlíð verið að pakka niður hafurtaski okkar til brottflutnings. Það segir sig eignlega sjálft hvers lags handleggur það er eftir 22 ára búsetu, þar sem drasl og dót hefur einhliða verið flutt inn, en ekkert út í staðinn.

  Eftir að hafa pakkað í tugi kassa og troðið í poka, stóðum við eins og ruglaður hænsnahópur yfir öllu saman, kössum, pokum, húsgögnum, píanói, kæli- og frystiskápum, þvottvél, þurrkara, sjónvörpum og hvað þetta nú allt er og var. Við sáum alls ekki hvernig við færum að því að flytja allt þetta út úr húsinu, sem er á þremur hæðum, stendur uppi í slakka þar sem niður margar tröppur er að fara og niður á bílaplan þar sem gámurinn stendur.

  Vegna manneklu og anna nágranna minna og barna voru góð ráð dýr. Mér hugkvæmdist þó að hringja í Einar Mangússon vin minn á Hvolsvelli, sem lengi hefur annast grafartökur í héraði ásamt björgunarsveitarmönnum úr Dagrenningu og spyrja hann hvort kæmi til greina að fá björgunarsveitina í flutninga út í gám. Hann kannaði málið sem skilaði frábærum árangri.

  Skemmst er frá því að segja að upp úr kl. 18 í gær renndu í hlaðið hér á Breiðabólstað tveir björgunarsveitarbílar og út úr þeim fjórar konur og fjórir karlar. Satt best að segja leist mér hæfilega vel á að leggja allan þennan burð á þær ungu konur sem mættar voru til erfiðsflutninga. Þar brást mér heldur jafnræðislistin og karlrembuhugsanir yfirtóku skynsemina. Fyrir þær hugsanir skammaðist ég mín þegar ég sá til kvennanna gefa körlunum ekkert eftir, nema síður væri.

  Þremur klst. og nokkrum pizzum síðar var verki lokið, allt komið í gáminn og húsið svo gott sem tómt, aðeins eftir drasl til að týna saman í poka og kassa.

  Um leið vil þakka hjálparsveitinni Dagrenningu, einkum og sér í lagi Guðrúnu Birgisd., Elísabetu, Margréti, Karitas, Einari, Birni, Magnúsi og Magnúsi Kristjánssyni formanni hjálparsveitarinnar sem mættu til átakanna fyrir þeirra vasklegu framgöngu. Að lokum vil ég láta þess getið hversu glöð og jákvæð þau voru öll, allan tímann meðan verkið stóð yfir. Það vakti ekki síður athygli mína en kraftur kvennanna.”

  Auglýsing