“Ég hitti hann í Bláa lóninu,” segir Gróa frá Eyrarbakka sem var að fá sér morgunkaffi á veitingahúsinu Kaffi Bryggjan í Grindavík í morgun með eiginmanninum, Alex frá Hjaltlandseyjum.
“Þetta var svo skrýtið. Ég var flutt til Skotlands þar sem sonur minn býr og kom heim í stutt frí, fór í Bláa lónið og hitti þar Skota. Síðan er ég búinn að vera hér í Grindavík með honum; í ellefu ár.”
Alex er hins vegar búinn að vera í Grindavík með annan fótinn í nítján ár. Hann er skipstjóri og stórútgerðarmaður á Hjaltlandseyjum og er nú að láta smíða fyrir sig nýtísku togara fyrir fimm milljarða í Noregi. Hann þjáðist lengi af psoriasis og hafði reynt næstum allt til að fá lækningu en án árangurs. Þá var honum bent á Bláa lónið og hann flaug samstundis til Íslands, leigði sér herbergi í Grindavík og fór beint í Lónið.
Og viti menn. Húðmeinið hvarf líkt og dögg fyrir sólu.
Þá keypti Ales sér lítið hús í Grindavík og dvaldist þar á milli þess sem hann sinnti útgerðinni á Hjaltlandseyjum.
Svo hitti hann Gróu í Bláa lóninu, þau felldu hugi saman á staðnum og síðan hafa þau búið í Grindavík, nú í nýju einbýlishúsi sem þau byggðu með hitaveitupotti í skúr út í garði þar sem Alex viðheldur ótrúlegum bata sínum á psoriasis. Og svo er stutt í Bláa lónið
Gróa og Alex giftu sig í Grindavík og buðu öllum bæjarbúum til veislu 07.07.07 en það ku boða gott á Hjaltlandseyjum – og hefur sannast í Grindavík.
Lífið er dásamlegt!
“Já,” segir Gróa og Alex samþykkir með breiðu brosi.
