Steini pípari sendir myndskeyti:
—
Náttúruverndarsinnar tala oft um að ákveðið fyrirbrigði sem þeir vilja vernda sem mikil verðmæti. Margir sem lesa þetta skilja það sem pening í vasa og náttúrsinnarnir ýta undir það. Verðmæti geta verið tilfinningaleg, vísindaleg og síðan eru þau sem skaffa pening í vasa. Oft fer þetta saman af því að margir vilja sjá þessi tilfinningalegu verðmæti og efla þar með ferðaiðnað í næsta nágrenni.

Ósnortin víðerni er orðskrípi sem á að vera þýðing á orðinu wildernes. Menn apa þetta upp og færa yfir á Ísland óskoðað og segja að þau séu svo verðmæt að ekki megi skerða þau. Wildernes er víða í kringum heimsskautsbaug, í regnskógum og eyðimörkum. Þau eru ekki sjaldgæft fyrirbrigði eins og margir halda fram. Menn hafa ekki skilgreint hér í hverju verðmætin eru fólgin. Menn hafa haldið því fram að það sé manninum nauðsynlegt að komast út úr kraðaki borgarlífsins. Ég hef stundað veiðar, nátturskoðun og náttúruljósmyndun og elska að vera í náttúrunni. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það þurfa að vera mannvirki svo sem vegir, þjónustuhús og einnig þarf gæslu til að margir fái notið án þess að skemma umhverfið. Þau rök að ósnortin víðerni séu mikilvæg fyrir borgarbúa halda ekki ef þeir komast ekki þangað og þjónustuhús og gæsla eru nauðsynleg til að þau haldist áfram fyrir komandi kynslóðir.
Ég sagði að ósnortin víðerni væru orðskrípi af því það ýtir undir allt annan skilning en orðið wildernes. Þetta hugtak varð til á meginlöndum þar sem wildernes er ríkara af dýra- og plöntulíf en hér er, jafnvel frumstætt mannlíf sem þarf að vernda. Skilgreining á fjarlægð frá mannvirkjum gæti tekið mið af því. Hér þurfum við að gæta að viðkvæmum gróðri svo sem mosa og skófum, að sandsléttur á hálendinu séu ekki útsporaðar af göngufólki, reiðmönnum og bílum, og ákveðin svæði verði vernduð gegn virkjunum svo sem ákveðin hverasvæði og vatnsvirkjanir. Í stað þess að banna þar öll mannvirki ættum við að skipuleggja hvernig sem flestir menn geti notið þessara verðmæta, ekki aðeins komandi kynslóðir, heldur við sem nú lifum.