ÖMURLEGUR TÍMI FYRIR AÐSTANDENDUR VEIKRA OG DEYJANDI

    Margrét Lilja í vinnunni á erfiðum tímum.

    “Ég get ekki orða bundist þegar ég heyri fólk vera að æsa sig yfir hertum aðgerðum vegna covid. Allan tímann síðan covid byrjaði hér á landi hef ég reynt að passa mig eins vel og mögulegt er bæði í vinnunni þar sem við tökum á móti allskonar veikindum og líka úti í samfélaginu þar sem ég hef viljað geta verið til staðar fyrir fjölskylduna mína og umgangast pabba og stjúpu mína í erfiðum veikindum og andláti,” segir Margrét Lilja Péturdóttir sem vinnur á slysa og bráðamöttökudeild í Fossvoginum.

    “Við erum búin að hafa jarðaför fyrir stjúpu mína með fáum útvöldum en við erum ekki búin að kveðja hana eins og pabbi vill gera, mín besta vinkona og svilkona er krabbameinssjúklingur í lyfjameðferð og núna liggur mágur minn á gjörgæslu, haldið sofandi í öndunarvél eftir hræðilegt slys 17. september. Systir mín er eina sem má heimsækja hann, börnin þeirra mega ekki koma og ég fékk bara að vera með henni fyrstu 3 dagana. Þetta er algjörlega ömurlegur tími fyrir aðstandendur veikra og deyjandi og síðast en ekki síst fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem alla daga þarf að klæðast íþyngjandi hlífðarfatnaði en er þó svo heppið að hafa aðgang að þannig fatnaði. Lífið er ekki bara að komast á krána eða í líkamsræktarsali, það er hægt að stunda líkamsrækt úti og heima hjá sér. Ég vildi svo gjarnan að fólk geti staðið saman, reynt að hemja sig og farið eftir lögum og tilmælum sóttvarnarteymisins.”

    Auglýsing