NÝTT LÚKK SÆVARS KARLS

  Áður var hann almannaeign sem allir þekktu. Sævar Karl klæðskeri í Bankastræti með stóran hóp viðskiptavina sem vildu aðeins það besta.

  Sævar Karl er nú búsettur í Munchen í Þýskalandi þar sem hann fæst við myndlist með góðum árangi og var í gær að festa upp plaköt í miðbæ Reykjavíkur, nær óþekkjanlegur, alskeggjaður í kasúal klæðnaði sem hann bar vel.

  “Það er gott að búa í Munchen. Þar er fólk ekki að flýta sér eins og hér,” segir Sævar en sýning hans opnar á laugardaginn í listasafni Mosfellsbæjar og er kynnt þannig:

  Sævar Karl opnar einkasýninguna Málverk í Listasal Mosfellsbæjar laugardaginn 21. september kl. 14-16. Sævar Karl (f. 1947) hefur stundað myndlistarnám við ýmsa listaháskóla hérlendis og í Þýskalandi og Austurríki. Hann hefur sýnt víða um heim m.a. í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Englandi. Þetta er í annað sinn sem Sævar Karl sýnir í Listasal Mosfellsbæjar.

  Málverk Sævars eru marglaga og full af litadýrð og orku. Þau eru innblásin af náttúrunni bæði hér á Íslandi og í München þar sem listamaðurinn dvelur hluta af árinu og er með vinnustofu.

  Síðasti sýningardagur er 18. október. Listasalur Mosfellsbæjar er til húsa inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Hann er opinn á virkum dögum kl. 12-18 og á laugardögum kl. 12-16. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

  Auglýsing