NÆSTI BÆR VIÐ FULLNÆGINGU – KRÖNS

  Sveinn, sveppasúpan og borgarinn í Lækjargötu.

  Þar sem ég er nú eldri en tvævetra og hef ferðast um allann heiminn og alltaf fundist gott að borða (eins og sjá má) hef ég stöku sinnum lent í því að borða það góða rétti að þegar komið er upp í munn og maturinn byrjar að leika við bragðlaukana að maður tímir varla að kyngja, því þetta er svo gott. Ógleymanlegur unaður og næsti bær við fullnægingu! Ótrúlegt en satt þá lenti ég í þessu í hádeginu í dag og það á nýjum skyndibitastað í Lækjargötunni,” segir Sveinn Dal Sigmarsson vefnaðarvörukaupmaður og bróðir Jóns Páls heitins, sterkasta manns í heimi:

  “Þessi staður heitir Kröns og opnaði í miðjum faraldri og á skilið alla okkar athygli. Einfaldur seðill en gæðin miklu meiri en liggur í orðinu “skyndibiti” og hlutirnir eru gerðir öðruvísi en annarsstaðar.

  Fékk mér fyrst sveppasúpu, og eins og segir í laginu “Hvað er svona merkilegt við það…”, þá kom yfir mig, þegar ég setti fyrstu skeiðina upp í mig, þessi unaður. Ég vildi hafa þessa súpu sem lengst uppi í munni og tímdi varla að kyngja. Síðan ágerðist græðgi í kallinn og gat ég ekki hætt að skófla þessari súpu upp í mig, endaði á að henda frá mér skeiðinni og bar skálina upp að andlitinu og svelgdi hana í mig alveg upp til agna. Hefði ég getað snúið skálinni við, hefði ég gert það og sleikt hvern postulínsflöt af áfergju. Súpan var heit, bragðmikil og úr öllum áttum og uppfull af sveppum. Ég bara spyr: Hvernig er hægt að gera svona einfaldan hlut eins og Sveppasúpu svona góða?

  Ég var ekki hættur, því núna fékk ég mér hamborgara hjá þeim og þar komu þau virkilega á óvart líka, því maður hugsar: Allir geta hent í einn hamborgara, með osti, káli og súrum. Undanfarið hafa smass búllur sprottið upp, þar sem buffið er kramið og næstum brennt. Jú jú fínasti þynnkubiti og ekki mikið öðruvísi en aðrir hamborgarar, því sama meðlæti er á þeim öllum. Á Kröns kveður við annann tón. Borgarinn er steiktur í pizzaofni og fær því æðislegan viðarkeim. Hann uppistendur af 160 gr af gæðaketi með ostafyllingu, þannig að þegar bitið er í buffið þá vellur djúsí ostur út. Síðan er sett á hann baconsulta, hægeldaðir tómatar, pikklaður laukur og toppað með þeirra eigin sósu sem gerð er á staðnum.

  Þarna gerðist þetta aftur og það á sama klukkutímanum, eftir fyrsta bita fylltist þessi búkur, sem er eitthvað yfir 0,1 tonn, af unaði. Sultan, tómatarnir, sósan og kjötið harmoneruðu svona svaðalega og ég hugsaði: “Þetta er besti borgari sem ég fengið á ævinni.”

  Endilega tékkið á þessu, því eftir þetta “opplevelse” þá vil ég ekki að Kröns hverfi úr veitingasenunni.

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinJE T’AIME
  Næsta greinJAKOB BJARNAR (59)