Góðir lesendur. Nú er undirrtaður kominn á þing, þ.e. Alþingi Íslendinga við Austurvöll í húsi sem var byggt 1881. Það er ein af ástæðum þessa pistils. Ég hefi verið að líta í kringum mig í miðborginni í leit að fallegum byggingum. Ég get ekki betur séð en einu fallegu byggingarnar eru þær sem byggðar voru á fyrri part síðustu aldar eða fyrr.
Tvær byggingar bera af. Annars vegar Þjóðleikhúsið og gamla Landsbókasafnið sem nú gengur undir nafninu Safnhúsið. Í samanburði við svokallað Hafnartorg þá er þetta eins og svart og hvítt. Svo er Norræna húsið, flott bygging. Mér finnst flestar byggingar bera með sér að það sé verið að koma sem flestum fermetrum fyrir á hverjum byggjanlegum fermetra. Útlit nýrra húsa er svona eitthvað þykjustunni smart. Engir alvöru díteilar sem skapa karakter sem er sorglegt. Ráðhús reykjavíkur er tilkomumikil bygging og nánast undantekning en þar sem það stendur svo þröngt innan um önnur hús þá nýtur það sín ekki til fullst. Hefði verið meira grand hefði það staðið úti í miðri Tjörninni. Þá hefði það verið fjarska fallegt sem það nær ekki að vera þar sem það er staðsett.
Ég get ekki bent á neitt hús byggt síðustu 20 til 30 ár sem ég sagt að sé flott byggt með reisn í huga. Harpan er hvorki falleg né ljót. Henni var reddað fyrir horn með ljósasjói sem listamaðruinn Ólafur Elíasson var fengin til að gera þegar kom í ljós hversu lítið var áhugavert við lúkkið á húsinu.
Ég er kominn á þá skoðun að miðborgin eigi að vera friðuð og fagráð ráði útliti og skipulagi því þetta er andlit landsins. Það er ekki eðlilegt að örfáir einstaklngar sem kosnir eru á 4 ára fresti geti ráðskast með svona mikilvægt element sem höfuðborgin er.
“My two cents for free” eða eins og Melkorka dóttir mín segir ” túkall “.
Áfram veginn! Tómas kallaður Tommi. 9. þingmaður fyrir Flokk fólksins í Reykjavík norður.