Sólborg Alda Pétursdóttir tekur Strætó, leið 15, í vinnuna og hún er mjög ósátt við bílana sem notaðir eru við farþegaflutningana og ritar harðorða grein á tímalínu Strætó.
„Ég get bara ekki orða bundist lengur. Ég ferðast nær daglega með strætó, leið 15, sem er strætó okkar Mosfellinga. Hægt og bítandi hefur þeim fjölgað sem taka strætó á þessari leið. En oftar en ekki er okkur boðið upp á skelfilegar druslur. Bílarnir eru gamlir og oft úr sér gengnir (með örfáum undantekningum). Yfirleitt er skítakuldi inni í þeim, miðstöðvarnar virka misvel og stundum kemur olíubrækjulykt þegar bílstjórarnir setja þær á.
Þessa vikuna hefur bíll nr. 162 verið notaður á leið 15. Þessi bill er ömurlegur. Kaldur og þröngur. Fá sæti og ekki mikið pláss fyrir fólk að standa. Það er t.d. svo þröngt á milli sætanna sem snúa hvort að öðru að annar farþeginn þarf að vera með útglent klofið til þess að það sé pláss fyrir fætur mótaðilans.
Er ekki hægt að gera betur?
Það er ekki mjög hvetjandi fyrir fólk að taka strætó á þessari leið þegar það líkist afplánun að sitja í þessum lélegu og köldu strætóbílum.“
Að sögn þá lánaði Strætó Kynnisferðum gömlu bílana sem að voru notaðir við þessa leið en nýir eru væntanlegir hjá verktakanum.
Lilja Sif skrifar einnig um þessa sömu leið:
„Strætó: Gerið þið ykkur grein fyrir að leiðaráætlunin fyrir leið 15 er ekki að virka? Ég treysti á þennan strætó til að komast í vinnu og það er að verða undantekning ef hann er ekki yfir 8 mínútum of seinn?”.