MAURAR FRÁ TRINIDAD Í HÚSADÝRAGARÐINUM

  “Þetta er svo margslungið og heillandi. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum morgni til að sjá hvað nýtt hefur gerst,” segir Tómas Óskar Guðjónsson forstöðumaður í Húsadýragarðinum um maurabú sem sett hefur verið upp til sýnis.

  Drottningarmaurinn var fluttur hingað til lands frá Trinidad fyrir tilstuðlan Andrew Stephenson sem er Skoti og mikil áhugamaður um maura. Hann fangar þær lifandi á staðnum en allt byggir þetta á drottningarmaurnum sem getur orðið 15 ára á meðan venjulegur maur lifir ekki nema í 2-3 vikur.

  “Allir maurarnir í búinu eru afkvæmi drottningarinnar sem hingað kom og því íslenskir,” segir Tómas Óskar í Húsadýragarðinum sem á vart orð til að lýsa útsjónarsemi mauranna sem vagga áfram í röð með laufblöð á höfðum sem þeir svo mylja niður og úr verður sveppur sem er næring þeirra.

  “Þeir borða ekki laufblöðin heldur umbreyta í svepp með samstilltu átaki. Þetta eru bændur.”

  Drottningarmaurinn hefur hlotið nafnið Frú Pálínu eftir starfskonu í Húsadýragarðinum sem er jafn heilluð af maurunum og forstöðumaðurinn sjálfur.

  Auglýsing