LOKSINS MEGRUNARLYF SEM VIRKAR

    "...engu að síður töluvert ódýrari valkostur en skurðaðgerð, ekki síst ef viðkomandi offitusjúklingi tekst að minnka þyngdina í þokkalegt horf á hálfu til einu ári."

    Heilsu-Geir sendir póst:

    Vitneskjan um megrunarlyfið Ozempic hefur verið að breiðast hratt út undanfarin misseri, sérstaklega í Bandaríkjunum. Ozempic er sagt fyrsta hættulausa lyfið með litlar aukaverkanir sem raunverulega getur hjálpað fólki til að léttast.

    Og Ozempic er meira að segja komið með markaðsleyfi á Íslandi. Hér er það hins vegar ekki kynnt í sérlyfjaskrá sem megrunarlyf, heldur sem lyf sem gagnast við sykursýki 2.

    Líklegt má þó telja að fæstir sykursýkissjúklingar hafi áhuga á Ozempic, þar sem Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kostnaði við það. Sú staðreynd staðfestir í raun að Sjúkratryggingar hafa áttað sig á því að lyfinu er aðallega ávísað til fólks í yfirþyngd. Og þar sem fitufordómar eru ríkjandi í þjóðfélaginu, þá taka Sjúkratryggingar ekki þátt í neinu sem getur gert líf offitusjúklinga bærilegra.

    Í bandarískum fjölmiðlum kemur fram að fólk fái Ozempic ávísað til þess eins að halda sér grönnum og sætir það mikilli gagnrýni enda hefur lyfið stundum verið ófáanlegt vegna ásóknar í það.

    Ozempic virkar þannig að það hægir á meltingunni og finnur fólk því síður fyrir hungri. Niðurgangur og ógleði eru fylgifiskar notkunar lyfsins, en það mun aðallega vera í byrjun notkunar þess og rjátlast af fólki.

    Íslendingar hafa í hundruðavís farið í rúmlega milljón króna aðgerðir til að minnka ummál magans og draga þannig úr lystinni og grennast. Ozempic er ekki gefins, samkvæmt sérlyfjaskrá kostar lyfjapenni með 4 skömmtum af lyfinu um 23 þúsund krónur og dugar í mánuð – einn skammtur í viku. Það er engu að síður töluvert ódýrari valkostur en skurðaðgerð, ekki síst ef viðkomandi offitusjúklingi tekst að minnka þyngdina í þokkalegt horf á hálfu til einu ári.

    Auglýsing