LÍFSBJÖRG Í HVERAGERÐI

  Matthías setti fuglinn í pappakassa, fór með niður að sjó þar sem hann tók flugið móti sunnanvindinum.

  “Þekkir einhver fuglinn? Fannst úti í rigningunni í Hveragerði og virðist eiga erfitt með að fljúga greyið, örlítið stærri en svartþröstur en er með sundfit á fótum,” segir Matthías Aron Jónsson sem leitaði ráða og fékk þau góð hjá Óskari P. Friðrikssyni:

  “Haftyrflar áttu fasta setu á norðanverðu Íslandi þar til fyrir einhverjum áratugum síðan, þeir eru svartfuglategund. Búa á Grænlandi og verpa í björgum þar. Þeir lifa á rækjum og ýmsum krabbadýrum. Í dag koma þeir til Íslands vegna þess að þeir lenda í vondu veðri og miklum vindum og þvælast yfir álinn á milli landanna. Þeir geta verið það þreyttir að þeir ná ekki að lifa eftir erfiða flugferð. Helsta von þeirra er að komast í sjó, þar eiga þeir smá möguleika á að ná sér í æti og styrkja sig.”

  Matthías Aron brást þá við:

  “Þessi fugl var í góðu standi! Ég fór með hann niðrí fjöruna við Hafið Bláa og hann hoppaði sjálfur úr kassanum og tók flugið um leið og hann fann sunnanvindinn undir vængjunum Hann er floginn út á haf. Takk fyrir hjálpina!”

  Auglýsing