Á hverjum morgni stilla þeir sér upp á götuhornum víða um Sjanghæ; það er liðskönnun sendlanna, strengir stilltir.
Bláklæddu sendlarnir eru eins og hluti af landslagi stórborgarinnar, á fleygiferð með varning allan daginn, pantanir frá veitingahúsum, netverslunum og hvað sem er. Þeir eru komnir á mettíma upp að dyrum viðskiptavina.
Svo standa þeir í upphafi vinnudags líkt og hermenn á meðan liðsforinginn hvetur þá til dáða með hrópum og þeir taka undir allir sem einn.
Svo eru þeir roknir af stað á vespunum inn í iðandi umferð stórborgarinnar færandi varninginn heim.