LENGI GETUR VONT (VEÐUR) VERSNAÐ

    Júlíus Sólnes prófessor og fyrsti umhverfisráðherra þjóðarinnar leit til veðurs í morgun og birti svo þessa vísindalegu hugleiðingu:

    Július Sólnes

    “Þetta er hámarkshiti dagsins í tveggja metra hæð yfir jörðu skv. GFS kerfi NOAA. Í gær setti ég inn færslu með skýringu þýzka veðurfræðingsins Lars Kirchhübel á þessu langavarandi staðviðri. Læta hana fljóta með aftur: Þýzki veðurfræðingurinn Lars Kirchhübel hefur komið með athyglisverða skýringu á leiðinlegu staðviðri, sem hefur hrjáð Íslendinga, þ.e.a.s. íbúa suðvesturhornsins, undanfarna þrjá mánuði eða svo. Kirchhübel bendir á, að yfir Norðurafríku sé belti háþrýstisvæða, sem nái óvenju langt til norðurs og hefur ekki hreyfzt í marga mánuði. Sambærileg háþrýstibelti eru yfir Írlandi, brezku eyjunum og Norðurameríku. Við þekkjum svo lágþrýstisvæðin, sem hafa farið sömu leið yfir Ísland síðan í vetur sem leið. Kirchhübel telur, að ástandið eigi eftir að versna, hitinn í Norðurevrópu fari vaxandi. Og mikill hiti er á norðurheimskautssvæðum, langt umfram meðaltal.
    Kirchhübel segir, að eftir því sem hitamismunur milli heimsskautssvæða og hitabeltis fari minnkandi, verður þrýstingsmunur milli þeirra minni en áður. Þar af leiðir að minna loft streymir milli háþrýsti- og lágþrýstisvæða víðsvegar á jörðu. Það að hægir á loftstreyminu milli þeirra, veldur meira staðviðri. Ef hitastig andrúmlofts hækkar, fækkar hitabeltislægðum, en þær sem koma verða mun öflugri en áður, því að andrúmsloftið þarf að taka við meiri hitaorku en áður. Þá verður heita loftið rakara-rakastig þess eykst um 7% við hverja hitagráðu- sem kemur til með að valda meiri úrkomu en áður.
    Lofthreyfingar milli há- og lágþrýstisvæða eru kallaðar Rossby bylgjur, sem stafa af snúningi jarðar um öxul sinn. Þær bugðast um háloftin milli þrýstisvæðanna. Síðustu árin hefur þessi hreyfing hægt verulega á sér, en ferlar þessara hreyfinga sveiflast þó lengra til suðurs og norðurs en áður. Þannig hefur t.d. heitt loft frá Sahara getað streymt til Siberíu.
    Lengi getur vont versnað er víst boðorð dagsins.”

    Auglýsing