LEITAÐI TIL SPÁMIÐLIS VEGNA SÝNINGAR

  Megi þá helvítis byltingin lifa er titill annarrar einkasýningar Steingríms Eyfjörð hjá Hverfisgalleríi sem opnar næstkomandi laugardag, 30. mars kl.16.00. Sýningar Steingríms Eyfjörð skera sig úr vegna þess að þar er ávallt varpað fram mörgum og stundum ósamrýmanlegum svörum við spurningum. Listmaðurinn veltir fyrir sér vandamálum og viðfangsefnum og leitast við að skoða þau frá ýmsum sjónarhornum. Oft leitar hann til annarra um álit, vitnar í aðra og fær jafnvel aðstoð miðla til að fá þátttakendur „að handan“ inn í samræðuna.

  Í aðdraganda sýningarinnar Megi þá helvítis byltingin lifa leitaði Steingrímur Eyfjörð til Ágústu Sigurfinnsdóttur spámiðils sem miðlaði eftirfarandi:

  1. Kali er það fyrsta sem birtist yfir sýningunni og opnuninni 30.mars. Kali (sanskrít: काली, bengalska: কালী, Kālī), einnig þekkt sem Kalika (bengalska: কালিকা, Kālikā) er hindúagyðja og stendur sem tákn fyrir eilífa orku alheimsins. Nafnið Kali þýðir „svört“ en hefur einnig farið að tákna „kraft tímans“ (kala). Kali er gyðja tíma, dauða og umbreytinga. Táknmyndir Kali sýna hana oftast sem dökka og grimma ófreskju og hún er álitin tákn gjöreyðingar í mörgum tilfellum. Flókin tantrísk fræði innan hindúasiðarins hafa gefið henni víðtækari skilgreiningu, allt að því að gera hana að „hinum endanlega veruleika“ eða Brahman. Kali hefur stundum verið dýrkuð sem Bhavatarini eða bókstaflega frelsari alheimsins.
  2. Tölurnar 3, 6 og 9 birtast sterkt og má túlka sem annað hvort fjölda verka eða númer þeirra sem fara. Summa þeirra er 18 og því er endanlega niðurstaða 9. Verk númer 9 stendur upp úr. Gríman kemur því sterk inn og er hún á verkum 6 og 9.
  3. Þrír verða spenntir, tveir verða móðgaðir og einn æstur. Hann kaupir. Á hring getur endapunktur einnig verið byrjun. Er þetta endir á einhverju og byrjun á einhverju öðru?
  4. Nei. En þú færð skilaboð, bréf eða símtal um verkin frá einhverjum þeim tengdum. Einn missir glas úr höndunum á sér. Í vinstra horninu nær þegar gengið er inn í salinn.
  5. Áhrifin verða töluverð. Tvíbent. Jákvæð. Sumir stara í forundran. Þekkt er að hundar gelti að því sem þeir þekkja ekki. Margir hafa varðhund í höfðinu á sér sem varar þá við hugsanlegum aðsteðjandi hættum, eins og nýjum hugmyndum. Nýmælum hefur oft verið mætt með gjammi og glefsum. Þeir varðhundar hafa þó lítil áhrif á heildarmyndina. Listamenn þurfa ekki að matreiða hugmyndir sínar þannig að þær renni vel ofan í hvaða hundskjaft sem er. Leiddu geltið hjá þér.
  6. Gamalt verk sem vesen var með kemur aftur til umræðu og svo virðist vera sem það komist þangað sem það á að vera. En það birtist kona, grönn, dökk yfirlitum, vel menntuð og gáfuð mjög, sem mun leggja dóm á hlutina. Hún er mjög hæf í sínu fagi og er fengin til að velja og hafna fyrir erlendan aðila.
  7. Haustið kemur sterkt inn, eða þegar aðeins er liðið á veturinn. Talan 11 tengist næstu skrefum og vonin drífur allt áfram. VON, ESPOIR, HOPE, SPERANZA.
  8. Nei. Herakleitos minnir þó á sig. Birtist og sýnir okkur sína einu bók sem eitthvað hefur varðveist úr. Hann geymdi hana í Artemisarhofinu í Efesos. Herakleitos hélt því fram að flestir væru sofandi í sínum eigin heimi. Ef við vöknum af þessum svefni gætum við hugsanlega nálgast einhvern raunverulegan sannleika um tilveruna.
  9. Gleði birtist hér með fólki sem kemur og ánægja með gestina. Ég sé eldri konu með staf og dótturdóttur hennar. Þær eru skemmtilegur félagsskapur en ekki það sem vonast var eftir. Vinur kemur með fallegan félaga með sér. Afbrýðisemi gerir vart við sig. Eugène Ionesco: „Aðeins hið skammvinna endist.“
  10. Nei, en einhver að norðan kemur við sögu og læknir hefur samband.
  11. Ríkismiðlarnir rækta menningarhlutverk sitt.

  Veröldin tjáir sig með mynstrum. Allt er stöðugt að breytast. Er einhver fegurð í núverandi stöðu, í óreiðunni? Ef horft er til baka má sjá hvað hefur breyst og hvaða mynstur leiddu hingað. Hvaða áhrif hefur einstaklingurinn á stöðuna? Horfðu inn á við, þá muntu sjá það sem alltaf hefur verið hulið. Það var þarna allan tímann. Samviska, hugmyndir, umbreyting og heilun. Kali birtist aftur til að kveðja, í kringum hana hringsnúast dansarar. Smágerðar bjöllur um ökkla þeirra undirleikurinn. Til þess að eitthvað nýtt geti átt sér stað þarf að ryðja úr vegi því sem fyrir er.

  Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) er meðal hinna fremstu í þeirri kynslóð íslenskra listamanna sem fram kom á áttunda áratugi síðustu aldar. Í vinnu sinni nýtir hann sér fjölbreytta miðla, þar á meðal ljósmyndun, teiknimyndir, myndbönd, málun, skúlptúra, gjörningalist, skrif og innsetningar. Efnisvalið er álíka fjölbreytt; hann sækir innblástur í jafn ólíkar áttir og þjóðsögur, Íslendingasögur, tískutímarit, trúarbrögð, hjátrú, krítíska teoríu og margs konar annað efni úr samtímanum, í meðförum hans skarast þau á margræðum tengipunktum þannig að úr verða marglaga verk, á stundum rugla þau mann í ríminu en í þeim birtist ævinlega skýr og óvænt sýn á þau viðfangsefni sem unnið er með. Steingrímur var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2007.

  Auglýsing