Hanna Katrín Friðriksson þingkona Viðreisnar mætti í leðurjakka til þingstarfa á dögunum og vakti uppnám hjá sumum sem gátu ekki orða bundist og sögðu að þetta væri í fyrsta sinn sem manneskja væri í leðurjakka á Alþingi. Undarleg viðbrögð þar sem leðurjakkar eru nær undantekningarlaust vönduð gæðavara og oftar en ekki jafnvel dýrari klæðnaður en jakkaföt sem verið hafa skyldudress á Alþingi um áratugaskeið.
“Dulbúinn gallajakki,” sagði Hanna Katrín og bætti við: “Ekki segja forseta Alþingis.”
Þetta er hins vegar ekki í fyrsta sinn sem alþingismaður klæðist leðurjakka við þingstörf. Jón Þór Ólafsson fráfarandi þingmaður Pírata var iðulega í leðurjakka í vinnunni – og komst upp með það þrátt fyrir athugasemdir.