Krónan og Hamborgarafabrikkan afhenda Hjartavernd 1,3 milljónir króna, og munar um minna.
Í tilefni af Landssöfnun Hjartaverndar – Heilbrigt hjarta á nýrri öld var ákveðið að endurvekja söfnun Hamborgarafabrikkunnar frá 2010 en í þetta sinn fékk Hamborgarafabrikkan Krónuna í lið með sér.
Krónan lét 100 kr. af hverri seldri Fabrikkuvöru í verslunum sínum renna til söfnunarinnar og Hamborgarafabrikkan 400 kr. af hverjum seldum Herra Rokk hamborgara.
Markmiðið náðist – að gera betur en árið 2010.
“Markmiðið með söfnuninni var að sjálfsögðu að gera betur en árið 2010 og afskaplega gleðilegt að það hafi tekist, fyrir Hjartavernd og fyrir okkur öll,” segir Ólafur Júlíusson, vöruflokkastjóri hjá Krónunni, en Krónan og Hamborgarafabrikkan hafa átt í farsælu samstarfi undanfarin misseri þar sem fjölmargar vörur Fabrikkunnar fást í Krónunni.
“Það er gífurlega mikilvægt fyrir Hjartavernd að eiga trygga stuðningsaðila. Stuðningur sem þessi er ómetanlegur í baráttu okkar í að finna fólk með einkennalausan æðasjúkdóm og hafa tækifæri til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar hans,” segir Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar.