Einstæður karlmaður sem fór í H&M á Hafnartorgi í Reykjavík í gærdag til að kaupa koddaver var síður en svo fyrir vonbrigðum. Hann fann koddaver á 2.500 krónur en þá benti afgreiðstúlka honum á að betri kaup væru í setti með tveimur koddaverum og sængurveri að auki; 5.000 krónur. Hann fékk semsagt sænguverið ókeypis.
Svaf hann vel um nóttina í nýja settinu en varð hugsað til fyrrum viðskiptaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, Gylfa Magnússonar, sem hvatti Íslendinga til að versla ekki við þessa okurbúllu.
“Ég held að þessi fyrrum viðskiptaráðherra ætti að biðjast afsökunar á óhróðri sínum ella éta hattinn sinn, ef á hann á þá hatt. En ódýran hatt getur hann fengið í H&M – jafnvel tvo fyrir einn,” sagði ánægði viðskiptavinurinn.
H&M á Hafnartorgi hefur fengið frábærar viðtökur og hillur tæmst jafnharðan og fyllt er á. Til dæmis er bara eitt hnífaparasett eftir af mörg hundruð sem sett voru í sölu fyrir síðustu helgi. Þau voru gullhúðuð.
Þá varpar verslunin skemmtilegri birtu úr búðargluggum sínum yfir Lækjargötu og lýsir upp hálfan Arnarhól þar sem Ingólfur Arnarson horfir yfir landnámsjörð sína af stalli. Að rölta eftir gangstéttinni fyrir framan H&M í ljósaskiptunum er eins og að vera í stórborg. Loksins.