Nú geta keiluáhugamenn og keiluíþróttamenn tekið gleði sína á ný þegar “kúlan fer aftur að rúlla” í Keiluhöllinni í Egilshöll. Keiluhöllinni verður skipt niður í fjögur svæði sem hvert um sig getur tekið við 50 manns.
“Við höfum útfært þessa svæðaskiptingu á mjög vandaðan hátt með öryggi viðskiptavina okkar og starfsfólks í forgrunni og förum eftir leiðbeiningum Almannavarna og Landlæknis”, segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna.
Um er að ræða fjögur svæði. Keilusalurinn sjálfur, sem telur 22 brautir, er eitt svæði og þar verður áfram leikið á annarri hvorri braut. Shake&Pizza er svo skipt í 3 svæði. Leið viðskiptavina og starfsfólks í gegnum svæðin er vandlega skipulögð.
“Það er aðeins setið á öðru hverju borði á Shake&Pizza og fjarlægðartakmarkanir eru á gólfum. Viðskiptavinir okkar munu ekki eiga í neinum vandræðum með að komast leiðar sinnar og njóta okkar þjónustu þar sem að allar merkingar og leiðbeiningar eru afar skýrar og aðgengilegar”, segir Jóhannes og bætir við: “May the fourth be with you!”