KARL KEMUR KAREN TIL VARNAR

  Ákveðinn hópur innan Samfylkingarinnar er ekki sáttur við ráðningu Karenar Kjartansdóttur sem framkvæmdastjóra flokksins og spyr: Hvers vegna í dauðanum er flokkurinn eiginlega að ráða sveitastelpu úr Landeyjunum?

  Karl Th. Birgisson ritstjóri Herðubreiðar og eitt sinn í sama starfi og Karen hefur nú tekið við, kemur henni til varnar og segir meðal annars:

  “Jæja. Gamli flokkurinn minn var að ráða sér framkvæmdastjóra. Og það er eins og við manninn mælt. Upp rís hópur fólks og er ógurlega hneykslaður á ráðningunni. Nema hvað? Við þurfum jú hneyksli dagsins og af öðrum var átakanlegur skortur í dag. Nýi framkvæmdastjórinn heitir Karen Kjartansdóttir. Hún hefur verið fréttamaður, almannatengill og ýmislegt fleira, og er bæði bráðklár og flink,” segir Karl og heldur svo áfram:

  “En það sem stendur upp úr hinum hneyksluðu er að hún vann um tíma hjá LÍÚ og tók að sér samskipti við fjölmiðla fyrir skítakísilverksmiðjuna þarna í Keflavík. Þetta síðarnefnda er að vísu orðum aukið, því að hún var í raun að sinna störfum fyrir Arion-banka, sem hafði af vizku sinni ákveðið að fjármagna fyrirtækið og fékk draslið þess vegna í fangið.”

  Í greininni segir Karl að framkvæmdastjóri stjórnmálaflokks móti ekki stefnu hans né búi til pólitík hans og segist hann tala þar af reynslu:

  “En – og af þessu sprettur líklega misskilningur hinna hneyksluðu – framkvæmdastjórinn getur haft áhrif. Ef hann er lunkinn. Hann getur gefið ráð og einkum getur hann með slíkri ráðgjöf hugsanlega komið í veg fyrir að fólk segi eða geri einhverja bölvaða vitleysu. Mér tókst það stundum, en alls ekki nógu oft. Og af því að ég þykist vita að Karen sé miklu lunknari en ég, þá ætla ég að fagna þessari ráðningu míns gamla flokks. Þrátt fyrir LÍÚ og skítaverksmiðjuna.”

  Auglýsing