JÓN VIÐAR HELDUR EKKI VATNI

    Jón Viðar Jónsson, helsti leikhúsgagnrýnandi þjóðarinnar um árabil, brá sér í leikhús um helgina og fékk eiginlega sjokk af ánægju. Og það gerist ekki oft:

    “Jæja, góðir hálsar, LOKSINS, LOKSINS, er hún komin leiksýningin sem við höfum beðið svo lengi eftir:sýningin sem leysir töfra leikhússins úr læðingi, svo þeir flæða og frussast og fossa út um allt sviðið og allan salinn, biksvört og blóðrauð, erótísk og ögrandi, en aldrei klúr eða klámfengin, alltaf sársaukafull og safarík; full af viti og vitleysu, fyndni og fantasíu, ástúð og íroníu, sorg og sjarma, trúðskap og trega (því það er alltaf tár í auga trúðsins eins og við vitum); í senn hamslaus og hrein, hlægileg og harmræn, nákvæmlega eins og Ástin sem hún fjallar um og er og verður með “hýrar brár og hendur sundurleitar” eins og hann Sigurður heitinn Breiðfjörð orti, sýningin sem maður gengur ekki út af heldur svífur og finnst að ætti að enda með allsherjar álfadansi á Tjörninni eins og í gamla daga, sýningin sem… jæja, ætli þetta sé ekki bara orðið gott. En hún heitir, svo það gleymist ekki, AHHH … (hvernig svo sem þið viljið bera það fram, læt ykkur um það) og er sýnd í Tjarnarbiói af leikgrúppu sem kallar sig RaTaTam. Sumir krítíkerar eru svo fínir með sig að þeir vilja ekki gefa stjörnur, þeir halda það sé plebbalegt af því þeir taka sjálfa sig hátíðlega (halda kannski þeir breytist þá sjálfir í trúða), en þessari sýningu myndi ég ekki bara gefa fimm stjörnur eða tíu, nei ef ég gæti myndi ég láta stjörnunum snjóa yfir hana, langt fram á sumar og áfram næsta vetur … því hún á langt líf skilið og fær það ef þið sem eruð ekki hætt að elska leiklistina, þrátt fyrir svo marga yfirmáta leiðinlega, dimma og drungalega leikhúsvetur, ef þið eruð nú snör í snúningum og tryggið ykkur miða! Hjartanlega til hamingju með þennan sigur, Elísabet Kristín Jökulsdóttir Charlotte Bøving Gudmundur Ingi Thorvaldsson og þið öll hin sem hafið slegið upp fyrir okkur þessari makalausu veislu!! Manni finnst maður vera kominn langt, langt til útlanda!”

    Auglýsing