
„Á Verslunarskólaárum mínum 1958-1961 var sumrunum varið í að afla tekna til þess að borga fyrir allt hvern næsta vetur. Eitt af því sem mér lagðist til var að starfa hjá Björgunarfélaginu Vöku, sem var þá líka í því sem kallað er verklegar framkvæmdir,“ segir Herbert Guðmundsson fyrrum útgefandi, fjölmiðlamaður og framkvæmdastjóri:
„Eitthvert sumarið vorum við þrír, verkstjóri og tveir yrðlingar, í því að leggja vatns- og skolprör í eina af Grandabryggjunum. Hádegin voru iðjulaus og útvarpslaus. Við gátum jú lagt okkur í vinnuskúr, sem okkur hafði verið úthlutað, þremenningunum. Eitt hádegið datt mér í hug að rölta upp í Kaffivagninn, sem var þá bara skúr. Erindið var að kaupa tvo Fauna vindla. Tilraun til þess að reykja fór fram í skjóli timburstafla utar á Grandanum. Þetta hafði sínar afleiðingar. Ég reykti vindla, aðallega Rosa Danica, næstu 30 og eitthvað árin! Lét reyna á pípuna, gafst upp út af sóðaskapnum, reyndi einu sinni að reykja sígarettu, þeirri tilraun lauk um leið og hún hófst!
Af hverju er ég svo að rifja þetta upp? Ég er jú reyklaus síðan eitthvað fyrir aldamót. En það er verið að skvera upp sjálfan Kaffivagninn eins og hann var orðinn sem alvöru veitingahús. Mér þykir eiginlega vænt um þetta spítuhús, kannski sem minnismerki um kaflaskil í mínu lífi, en líka um ómissandi viðkomustað á Grandaróli, sem er ómissandi fasti minnst vikulega, þegar veðraöflin eru hliðholl!“