„Er allt að fara í hund og kött?“ spyr Sigurður Ingi formaður Framsóknarflokksins sem einnig er dýralæknir og veit því hvað hann syngur þegar dýr eru annars svegar:
–
„Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar á þessu þingi er að breyta fjöleignarhúsalögum þannig að einstaklingar geti haldið gæludýr í fjölbýli, jafnvel þótt húsfélag hafi áður samþykkt að banna slíkt. Með frumvarpinu er verið að rýmka heimildir til að halda gæludýr verulega frá því sem nú er. Þótt húsfélag hafi sett skýrar reglur gegn dýrahaldi, verður það í raun gert nær áhrifalaust. Einstaklingur getur krafist undanþágu og húsfélagið hefur takmarkað svigrúm til að hafna því.
–
Þetta er í raun skerðing á réttindum þeirra sem af heilsufarslegum eða félagslegum ástæðum geta ekki búið í fjölbýli þar sem dýrahald er leyft. Það á við um fólk með ofnæmi, kvíða, fötlun eða þá sem líður einfaldlega illa með slíkt í nærumhverfi sínu. Heimilið á að vera griðarstaður fólks. Staður þar sem það býr við frið, öryggi og velferð. Fjölbýli er samfélag fólks sem deilir sameign og ábyrgð. Samþykktir húsfélaga eru grundvöllur þess að slíkt samfélag virki.
Réttur einstaklings til að halda gæludýr má ekki ganga framar rétti annarra til að búa við heilsusamlegt og öruggt umhverfi. Með frumvarpinu er valdið fært frá heildinni til einstaklingsins, og það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir aðra íbúa. Núgildandi lög hafa í mörgum tilvikum reynst vel og veitt nauðsynlegt jafnvægi milli ólíkra þarfa íbúa í fjölbýli. Því er engin ástæða til að kollvarpa því samkomulagi með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu.
–
Þá vekur einnig athygli hve rýr undirbúningur þessa máls hefur verið. Samráð við hagsmunaaðila er afar takmarkað og fagleg vinnubrögð virðast víkja fyrir hraða og þrýstingi. Því miður er þetta ekki einsdæmi – þetta er hluti af stærra mynstri þar sem „verkstjórnin“ í ríkisstjórninni afgreiðir flókin og viðkvæm mál með lágmarks umræðu og samráði.
–
Þingflokkur Framsóknar leggst gegn frumvarpinu og minnir á að þau sjónarmið sem snúa að velferð og líðan fólks verða alltaf að vera í forgrunni þegar rætt er um reglur sem snúa að heimilum landsmanna.“