„Ég óska verkakonum á Íslandi til hamingju með daginn. Ég vona að sú stund renni einhvern tímann upp að atkvæði okkar sem að tilheyra þessari stétt geti farið til fólks og flokka sem hafa raunverulegan pólitískan áhuga og metnað gagnvart því verkefni að bæta kjör verka og láglaunakvenna þeirra sem að knýja áfram hagvöxtinn og halda umönnunarkerfum þjóðfélagsins gangandi með vinnuafli sínu,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar á baráttudegi kvenna í dag:
„Ég hvet verkakonur á Íslandi til að setja sig sjálfar í fyrsta sætið. Standið með ykkur sjálfum og hagsmunum ykkar og barna ykkar. Ekki láta hugmyndafræði hinnar menntuðu millistéttar og efri stéttanna um að kvennabaráttan eigi að vera laus við stéttabaráttu ná tökum á ykkur. Ekki trúa því að hag ykkar sé best borgið með að styðja gagnrýnilaust brauðmolakenningar meginstraumsfemínismans – hugmyndafræði sem að hefur engan áhuga á hagsmunum ykkar eða ykkar efnahagslegu tilveru. Standið með ykkur sjálfum og hvor annari. Þið eruð ómissandi að öllu leiti. Án ykkar stoppar hér allt.“