„Stöðumælaverðir eru líklega að verða óþarfir. Gott að ég var hætt,“ segir Þóra Andrésdóttir um gamla starfið sitt sem stöðumælavörður í Reykjavík. Nú skanna sérútbúnir bílar heilu göturnar með aðstoð gervigreindar, mynda öll númer og senda sektir beint í heimabanka ökumanna hafi þeir ekki greitt. Gömlu sektarmiðarnir undir rúðuþurrkum voru aflagðir fyrir löngu.
„Sjálf hætti ég fyrir mörgum árum eftir 20 ár sem stöðumælavörður,“ segir Þóra sem er hjúkrunarkona sem skipti um starfsvetttvang því hún vildi hreyfa sig meira og vera úti við:
„Við vorum kannski ekki nema svona tíu talsins þó fólk hafi haft annað á tilfinningunni. Einu sinni vorum við bara tvö mætt til vinnu og skiptum miðbænum á milli okkar. Ég var varla byrjuð að sekta þegar bílstjóri kom til mín og sagði að ekki væri hægt að þverfóta fyrir okkur í bænum. Hvað við værum eiginlega mörg? En þá vorum við bara tvö.“