„Internetið ætlaði á hliðina í vikunni þegar hjúkrunarfræðingur sagði í frétt á RÚV að foreldrar ættu ekki að láta börn sín sofa úti í vagni,“ segir Sif Sigmarsdóttir landsfræg pistlastjarna í London:
„Ég eignaðist mitt fyrsta barn í London fyrir rúmum áratug. Þegar Íslendingar fréttu að barnið svæfi ekki úti voru viðbrögðin svo heiftarleg að ég óttaðist að íslenskur ríkisborgararéttur minn yrði gerður upptækur.
Afsakandi reyndi ég að útskýra fyrir fólki að ef ég hefði þjóðlega hefðina í heiðri í London og nágranni kæmi auga á barnið aleitt í vagni úti í garði myndi hann samstundis hringja í barnaverndaryfirvöld. Því í London skilur enginn barn eitt eftir utandyra. Maður skilur ekki einu sinni kerruna eftir tóma utandyra af ótta við að henni verði stolið.“