Á þjóðhátíðardaginn 17. júní verður boðið upp á fjölbreytta og veglega dagskrá í Reykjavík. Skrúðganga verður frá Hallgrímskirkju, tónleikar, götuleikhús, dansveisla, sirkus, leiktæki, matarvagnar og fornbílasýningar í Hljómskálagarði og á Klambratúni svo fátt eitt sé nefnt.
Hátíðarathöfn á vegum Alþingis og forsætisráðuneytisins hefst á Austurvelli kl. 11:10 en henni verður sjónvarpað og útvarpað á RÚV. Þar flytur forsetinn hátíðarávarp en ekki forsætisráðherra eins og hingað til. Forsætisráðherra leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar og fjallkonan flytur ávarp en venju samkvæmt hvílir leynd yfir því hver hún er þar til hún gengur út á völlinn. Að lokinni athöfn fer skrúðganga frá Austurvelli í Hólavallakirkjugarð þar sem Sanna Magdalena Mörtudóttir, forseti borgarstjórnar, leggur blómsveig frá Reykvíkingum að leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans.
Skátar leiða skrúðgöngu frá Hallgrímskirkju klukkan 13:00 sem endar í Hljómskálagarðinum. Í skrúðgöngunni slást leynigestir með í hópinn þeirra á meðal eru allir landvættir Íslands. Lúðrasveitin Svanur leikur undir sér um að slá taktinn.
Öllum er velkomið að taka þátt.
Í Hljómskálagarðinum verður fjölbreytt dagskrá og ætti engum að leiðast – dans, sirkus og hoppukastalar og allt ókeypis.
Á Klambratúni hefst fjörið klukkan 13:00. Þar verða matarvagnar, Lúðrasveit verkalýðsins og alls konar sprell fyrir börn og fullorðna.
Í Ráðhúsinu verður harmonikkufjör og í Árbæjarsafni verður hægt að skoða þjóðbúninga, sjá þjóðdansa, fornbíla og fá gamaldags sleikjóa. Ókeypis aðgangur fyrir þá sem mæta í þjóðbúningi, öryrkja og börn.
Allir velkomnir alls staðar.