Eins og hrái laukurinn sé nánast saxaður í mauk og sinnepið vart af þessum heimi.
“Eina með sinnepi og hráum lauk í botninum.”
“Vel valið,” segir konan í lúgunni í pylsuvagninum á bílastæðinu hjá Ríkinu í Skeifunni. Hún heitir Hulda og veit hvað hún syngur. Stofnaði fyrirtækið fyrir áratugum, seldi það en svo þremur árum síðar var vagninn auglýstur til sölu og þá keypti Hulda hann aftur. Og þarna er hún í lúgunni með dásemdina sína: Pulsu með sinnepi og hráum í léttristuðum brauðbotninum.
Hún spjallar, stundum svo mikið að viðskiptavinirnir aka frá lúgunni, búnir að borga en gleyma pulsunni. Það var svo gaman.
“Ég er bara Reykvíkingur ef maður má segja svoleiðis. Hér fæddist ég og ólst upp í Vogahverfinu hér rétt hjá,” segir hún léttlynd í lúgunni alla daga.