HRUND Í HJARTASTOPP EFTIR BYRLUN

    "Ég var með mar eftir hjartastuðpúðana á bringunni."

    “Undanfarna daga er ég búin að vera mjög triggeruð yfir umræðunni um byrlanir. En á sama tíma er ég ólýsanlega fegin að þessi umræða er komin í gang,” segir Hrund Snorradóttir á Akranesi og hún hefur sögu að segja:

    “2017 var ég 32. Ég fór í matarboð til vinkonu og drakk hvítvínsglas með matnum. Ég drakk tvo flöskubjóra á eftir mat og fór svo á barinn með æskuvinkonu minni. Ég ætlaði ekki að drekka mikið því ég ætlaði í göngu daginn eftir. Ég fer á barinn og panta tvo drykki og tvö vatnsglös. Ég fer með annan skammtinn til vinkonu minnar og næ svo í minn. Ég tók tvo sopa og áður en ég vissi af var ég farin að æla í nærliggjandi glös. Dyraverðirnir ætluðu að vísa okkur út en vinkona mín þekkir mig mjög vel og veit að þetta er enga vegin mín drykkjuhegðun. Hún spyr mig hvort hún eigi að hringja á leigubíl en ég vissi að þetta var eðlilegt og sagði nei. Hringdu á sjúkrabíl. Það að hún trúði mér varð mér til lífs. Þegar við komum út af staðnum biðu mín lögreglumenn. Dyraverðirnir báðu lögregluna um að fá að gefa skýrslu vegna þess að þetta gerist á hálftíma. Það leið hálftími frá því að ég labbaði svo gott sem edrú inn á staðin þangað til ég er ælandi og grátandi úti á götu. Eftir að vinkona mín náði að sannfæra lögregluna um að ég væri ekki bara full förum við með sjúkrabíl upp á slysó. Á leiðinni fæ ég krampa og í kjölfarið fer ég í hjartastopp og flutningamennirnir þurftu að stuða mig í gang. Þegar ég ranka við mér á bekknum á bráðamóttökunni eftir fleiri krampa og tveggja klukkustunda eftirlit var ég spurð af lækni hvort ég gæti hafa verið með undirliggjandi ælupest. Ég var með mar eftir hjartastuðpúðana á bringunni. Eina manneskjan sem ekki brást í allri þessari senu var vinkona mín sem barðist tooth and nail fyrir því að ég hafi ekki “bara verið full”. Hefði verið tekið blóð úr henni hefði komið í ljós að hún hafði drukkið meir en ég.”

    Auglýsing