HNÍFABARDAGI Í FERÐABRANSANUM

  Atli Rúnar fór á Hornið og varð vitni að sögulegum snúningi.

  “Óræð ferðasaga leyndist á bak við spjald sem smiðir sviptu af gamla Eimskipafélagshúsinu í miðborginni upp úr hádegi í dag. Gestir við snæðing á Horninu, handan götunnar, rýndu með iðnaðarmönnunum í það sem þar blasti við. Dyr höfðu verið „blindaðar“ fyrir margt löngu og á hurð héngu enn áríðandi skilaboð frá Ferðaskrifstofunni Úrvali,” segir fjölmiðlamaðurinn Atli Rúnar Halldórsson.

  “Hvað gerðist? Nennti Úrvalsliðið ekki að taka snepilinn niður eða gleymdist það á sínum tíma? Var Úrval sameinað Útsýn í þvílíku hasti að smiðir negldu fyrir dyr og glugga og starfsmenn forðuðu sér á hlaupum? Menn voru skáldlegir á gangstéttinni og fleiri tilgátur heyrðust, ekki allar prenthæfar.

  Ferðaskrifstofan Úrval var stofnuð árið 1970 af Eimskipafélaginu og Flugfélagi Íslands og var til húsa á jarðhæð Eimskips. Svo mikið er víst. Ferðaskrifstofum fjölgaði síðan hratt í landinu næstu árin en viðskiptavinum fjölgaði ekki endilega í takt.

  Í maí 1989 var spurt í fyrirsögn í DV: Ár hinn löngu hnífa hjá ferðaskrifstofnunum? Þá voru ferðaskrifstofur á Íslandi orðnar yfir þrjátíu talsins en Íslendingar voru enn innan við þrjár milljónir

  DV taldi að vísu að Úrval og Útsýn þyrftu ekki að óttast langa hnífa, sú fyrri með Eimskip og Flugleiðir að bakhjarli en sú síðari með Þýsk-íslenska sér að baki. DV hafði bara ekki vit á hnífum frekar en ýmsu öðru.

  Í árslok 1989 sameinuðust Úrval og Útsýn og Knútur Óskarsson, framkvæmdastjóri Úrvals, varð framkvæmdastjóri Úrvals-Útsýnar. Hnífabardagi í ferðabransanum forðum daga kom bara upp í hugann í miðbænum áðan. Annað var það nú í bili.”

  Auglýsing