HILMAR OG TEDDI HEIÐRAÐIR MEÐ BÍÓMYND

  Sæbjörgin VE 56 og Hilmar og Teddi.
  Atli Rúnar.

  “Þakklæti og spennufall að leik loknum, ekki samt leik í venjulegum skilningi heldur að lokinni frumsýningu heimildamyndar fyrir fullum sal í Safnahúsinu í Vestmannaeyjum í dag. Myndin heitir Hilmar og Teddi, heiður sé sægörpum og fjallar um Hilmar Rósmundsson og Theodór S. Ólafsson, mág Hilmars, og sameiginlega útvegssögu þeirra í aldarfjórðung í meðvindi og mótvindi,” segir Atli Rúnar Halldórssonlandsþekktur fjölmiðlamaður og höfundur myndarinnar. ”

  “Ég hef unnið að myndinni undanfarnar sex vikur og hún verður sýnd oftar í Eyjum á næstu dögum, í bíóinu á vegum Félags eldri borgara, í Hraunbúðum, hjúkrunarheimili aldraðra og í Safnahúsinu.

  Sæbjörgin þeirra Hilmars og Tedda var aflahæst Eyjabáta þrjár vertíðir í röð og reyndar aflahæsti bátur landsins á einni þeirra.

  Tveir bátar þeirra strönduðu og einn sökk en allir í áhöfnum björguðust. Þar ber hæst björgunarafrek Grindvíkinga við hrikalegar aðstæður í innsiglingunni í Grindavík snemma árs 1973 og björgunarafrek Hornfirðinga við Stokksnes skömmu fyrir jól 1984.
  Teddi upplifði þessa atburði og var þar að auki áður í áhöfn báts sem strandaði við bæinn Sigluvík í Landeyjum 1956. Teddi bjargaðist með öðrum orðum fjórum sinnum úr sjávarháska og Óttar Sveinsson, rithöfundur og útgefandi Útkallsbókanna, er ekki í vafa um að slíkt sé einsdæmi hérlendis.

  Heimildarmyndin um Hilmar og Tedda er hliðarsjálf Sjómannadagsblaðsins sem Ómar Garðarsson ritstýrir fyrir Sjómannadagsráð Vestmannaeyja og hefði ekki orðið til án heimildarvinnu hans og undirbúnings með mér. Hún er byggð á upp viðtölum sem ég tók upp sjálfur, gömlum fréttum úr safni RÚV og bútum úr myndum á 8 mm filmu sem Stefán Friðriksson stýrimaður tók um borð í Sæbjörgu á veiðum.

  Handritið skapaði sig að miklum hluta sjálft en ég skrifaði texta og er þulur í myndinni. Helgi Hannes, sonur minn sá um að klippa hráefnið, setja myndina saman og græja hana tæknilega til sýningar. Þetta er því hálfgerður heimilisiðnaður okkar en þarf ekki endilega að vera lakari fyrir það!

  Vinnutörnin var snörp en áhugaverð og sagan hafði mikil áhrif á mig. Því miður eru báðir heiðursmennirnir látnir en vonandi tekst að bregða upp minningarleiftri úr lífi þeirra og starfi sem heiðrar minningu þeirra á þann veg sem þeir og fjölskyldur þeirra verðskulda.
  Viðbrögðin frumsýningargesta voru sterk og uppörvandi. Vænst þótti mér um orð sem nánustu fjölskyldur Hilmars og Tedda létu falla. Þau hlýjuðu verulega og glöddu.”

  Auglýsing