HANNESARHOLT NÆR EKKI ENDUM SAMAN – STYRKTARTÓNLEIKAR

    Menningarmiðstöðin Hannesarholt á Grundarstíg nær ekki endum saman og er því efnt til styrktartónleika fyrir starfsemina og í tilkynningu segir:

    “Á þeim sex árum sem liðin eru frá stofnun hefur Hannesarholt staðið fyrir, eða hýst, yfir sex hundruð viðburði. Húsið er opið öllum á opnunartímum og er reglulega sótt af samborgurum á öllum aldri, jafnt í óformlegar heimsóknir, sem og á viðburði. Hannesarholt er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun sem hefur ekki notið opinberra rekstarstyrkja hingað til. Helstu máttarstólpar starfseminnar eru veitingastaðurinn í Hannesarholti og útleiga á fundaraðstöðu. Breytt samkeppnisumhverfi veldur því að stofnunin nær ekki endum saman.”

    Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og fyrrverandi konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Gerrit Schuil píanóleikari, sem unnið hefur ómetanlegt tónlistarstarf á Íslandi undanfarna áratugi, halda styrktartónleika í Hljóðbergi Hannesarholts sunnudaginn 3. mars kl.16.

    Tónleikarnir bera yfirskriftina Mozart Meditation, en efnisskráin samanstendur af sumum fegurstu sónötuþáttum og öðrum verkum Mozarts fyrir píanó og fiðlu. Guðný flutti öll 32 verkin eftir Mozart ásamt 8 píanóleikurum á tónleikaröðinni Mozartmaraþon, sem stóð yfir í Hannesarholti allt síðastliðið ár. Gerrit tók þátt í tveimur þeirra. Má segja að þessir tónleikar séu nokkurs konar endapunktur og þakklætisvottur flytjenda til Hannesarholts. Guðný og Gerrit gefa vinnu sína og ágóðinn rennur allur til hússins, “sem með óeigingjarni starfsemi sinni stendur fyrir fjölbreyttum menningarviðburðum, flytjendum til gagns og áheyrendum til yndis og ánægju.”

    Auglýsing