GUÐBJÖRG TAPAR STÓRT

  Borist hefur póstur:

  Guðbjörg Matthíasdóttir, ein ríkasta kona landsins, hefur tapað stórt á fjárfestingum sínum í eignarhaldsfélaginu Kvos. Hún keypti meirihlutann í því árið 2013 og innan þess félags voru Prentsmiðjan Oddi, Plastprent og Kassagerð Reykjavíkur. Tvö síðarnefndu félögin voru svo sett inn í Odda.

  Núna er fjárfestingin í kassagerðinni og plastprentinu töpuð, tilkynnt var að þeirri starfsemi yrði hætt og 86 starfsmönnum sagt upp. Sú umbúðaframleiðsla var fyrir löngu hætt að standa undir sér. Jafnvel ríkasta fólk hefur takmarkaða þolinmæði fyrir því að blæða peningum.

  Umbúðaframleiðslan stóðst ekki samkeppni við innfluttar vörur og því fór sem fór. Meira að segja prentsmiðjan Oddi hefur þurft að skera niður í starfsemi sinni og er hætt að framleiða innbundnar bækur. Sjálfsagt keppa kaupin á Kvos/Odda við kaupin á Árvakri/Morgunblaðinu um titilinn “Verstu fjárfestingar Guðbjargar”.

  Ekkjan úr Eyjum er þó ekkert á flæðiskeri stödd fjárhagslega. Sjávarútvegsfyrirtæki hennar í Vestmannaeyjum græðir á tá og fingri. Hún er einnig aðaleigandi Íslensk-ameríska, Ísam, sem m.a. flytur inn áfengi og matvörur og rekur Mylluna. Vonandi er rekstur Myllunnar réttu megin við núllið. Það væri leiðinlegt ef þar væri hætt að baka brauð og kökur og við þyrftum að fara að lifa á innfluttu brauðmeti.

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinTÝNDU FRÉTTIRNAR
  Næsta greinSAGT ER…