GETUR ÞETTA VERIÐ RÉTT?

  Ómar Ragnarsson söng á sínum tíma mjög skemmtilegt lag sem byrjaði einhvern veginn svona: “Ég er nu svo gamall sem á grönum má nú sjá”.

  Þannig er nú komið fyrir mér að ég er ekki lengur 47 þó svo ég eigi erfitt með að muna það nema þegar ég lít í spegil á morgnana. Þá segi ég: “Obs! Er þetta ég?”

  En þetta á nú fyrir okkur flestum að liggja. Eins og maðurinn sagði, ekkert er öruggt í þessum heimi nema skattar og dauði. Við eldumst, eða þannig. Það er bara gaman þegar upp er staðið.

  Elísabet Taylor sem var á sínum tíma skærasta kvikmyndastjarnan í Hollywood sagði: “Life begins at 40”. Í nútímasamfélaginu er hins vegar sagt: “60´s are the new 40´s”. Þá ætti ég að vera rúmlega fimmtugur miðað við þá speki. Sem ég ætla að hugga mig við enda ekki annað í boði.

  Jæja, þannig er að eftir 67 ára aldur býðst eldri borgunum að þiggja eitthvað sem í gamla daga var kallað ellilaun hvað svo sem það er kallað i dag. Þetta er öðruhvoru megin við kr. 250.000 á mánuði sem viðkomandi borgar fulla skatta af sem er skrítið en ókei – (ríkið borgar en tekur síðan til baka). Alla vega eru þetta greiðslur sem koma frá Tryggingastofnun. Einhverra hluta vegna þá leitast stofnunin við að skerða þessar greiðslur eftir öllum hugsanlegum leiðum sem þýðir að fái viðkomandi einhverjar greiðslur að auki þá vill hún (Tryggingastofnunin) lækka upphæðina, helst þannig að viðkomandi fá sem minnst.

  Það er talað um svokallað frítekjumark sem er kr. 100.000 þannig að viðkomandi ellileífeyrisþegi má fá samtals kr. 100þ í vinnulaun áður en farið er að skerða ellilaunin. Sama gildir ef viðkomandi fær greidd svokölluð eftirlaun þá er það kr 100þ í frítekjumark.

  En nú kemur “the moral of the story”: Fái annar eldriborgari greiddar kr. 100þ úr lífeyrissjóði þá er frítekjumarkið ekki nema kr. 25.000.

  Ég spyr: Hver er munur á eftirlaunum sem eru byggð á áunnum réttindum vegna vinnu og koma í staðin fyrir lífeyrissjóð og lífeyrissjóðsgreiðslum sem líka eru byggðar á áunnum réttindum vegna vinnu?

  Það er svo auðvelt að níðast á eldra fólki, það liggur svo vel við höggi.

  Það hlýtur að vera ólöglegt að mismuna fólki á þennan hátt. Hvoru tveggja greiðslur eru tilkomnar eftir áralanga vinnu. Sumir vinna á fleiri en einum vinnustað um ævina og vinna sér inn lífeyrissjóðsréttindi meðan aðrir vinna hjá sama vinnuveitenda (þá oftar en ekki hjá hinu opinbera) allt sitt líf.

  Þetta verður að leiðrétta.

  Ég segi nú bara eins og Inga Sæland hjá Flokki fólksins: Fólkið fyrst svo allt hitt.

  Áfram veginn!

  Auglýsing