FRIÐRIK OG DAISY DROTTNING

  Daisy og Friðrik.

  Margrét Þórhildur Danadrottning fagnaði fimmtíu ára krýningarafmæli sínu í gær. Ég elska Daisy eins og Danir kalla hana með mikilli ástúð,” segir Friðrik Indriðason blaðamaður sem þekkir vel til í Danaveldi:

  Ég er svo heppinn að hafa tvisvar hitt hana og skiptst á nokkrum kurteisisorðum. Í fyrra skiptið var það um borð í Dannebrogh í Bröttuhlíð á Grænlandi þegar 1.000 ára afmæli Eiríks rauða var haldið hátíðlegt. Í síðara skiptið var það á hinum fræga “kryddsíldar” fundi í Kaupmannahöfn.

  Þegar ég bjó um skeið í Kaupmannahöfn hér fyrr á árum skynjaði ég sterkt hve Danir elska heitt sína drottningu. Hún er stórreykingarkona og fer ekkert leynt með það. Reykir raunar svo sterkar grískar sígarettur að þær eru bannaðar víða í Evrópu vegna nikótínmagns.

  Dag einn var danska pressan svoleiðis upp að keyra gegn “rétttrúuðum” Svíum að ég hélt að stríð væri að skella á milli landanna. Glæpur Svía var heilög reiði yfir því að Daisy hafði skroppið úr miðri kvöldveislu í Stokkhólmi til að fá sér smók í næsta herbergi. Veislan var í opinberri byggingu (höll) þar sem stranglega bannað er að reykja. Sænskir fjölmiðlar nærri sprengdu á sér tútturnar af hneykslan yfir þessu athæfi Daisy. Danskir fjölmiðlar svörðuðu með breiðsíðum um hve Svíar væru hægðatepptir í hugsun.

  Breska blómið Daisy.

  En hvað um það. Gælunafnið Daisy fékk Margrét Þórhildur sem barn og erfði það frá breskri krónprinsessu sem hún var skríð í höfuð á, þ.e. Margrethe. Sú breska hafði fengið viðurnefnið eftir samnefndu bresku blómi. Sú dó hinsvegar ung og erfði Margrét Þórhildur gælunafn hennar.

  Daisy er orðið það samofið Margréti að stundum hefur hún notað það sem undirskrift á opinberum skjölum. Þannig skrifaði hún Daisy undir samúðarbréf sitt til norsku konungshjónanna í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar þar 2011. En á það ber að líta að allt norræna konungsslektið kallar Margréti Daisy frænku.

  Auglýsing