FORSETAFRÚIN BRAGÐAÐI SKÖTU Í FYRSTA SINN

  Forsetafrú, bæjarstjóri og skata á borðum í Eyjum.

  “Elisa Reed forsetafrú bragðaði kæsta skötu í fyrsta sinn á ævinni í veitingahúsinu Canton í Vestmannaeyjum um helgina og ýmislegt bendir til þess að hún muni bragða í annað sinn þegar skata verður í boði næst,” segir Atli Rúnar Halldórsson almannatengill hjá Athygli .

  “Forsetafrúin var á laugardag og sunnudag í Eyjum sem heiðursgestur Sjómannadagsráðs, fór víða um bæinn, heimsótti marga og sá margt. Hún flutti ræðu á Stakkagerðistúni, lagði blómsveig að minnisvarða um drukknaða og hrapaða – og mætti í skötuna. Hefð er fyrir því Eyjum að Sjómannadagsráð og gestir þess fái sér skötu í hádeginu á Sjómannadaginn og sóknarpresturinn mætir líka til að hlaða batteríin fyrir sjómannamessuna í Landakirkju, í þetta sinn Séra Guðmundur Örn Jónsson.

  Rikki kokkur, aðaldriffjöður Sjómannadagsráðs, stjórnaði skötuveislunni á Canton eins og flestu sem tengist þessari stórhátíð Eyjamanna. Hann er matsveinn á Bergey VE. Áhöfnin veiddi skötuna, Rikki sá um að kæsa, undirbúa veisluhöldin og græja herlegheitin með miklum sóma. Hann klæddist einkennisbúningi sem sér víst fortíð sem galli kokks í bandaríska sendiráðinu í Reykjavík. Veðrið lék ekki við Sjómannadagsráð og Eyjamenn yfirleitt um helgina. Á köflum rigndi líkt og hellt væri úr fötu en menn brostu samt breitt. Það var nú einu sinni sjómannahelgi. Kalsarigning breytir nákvæmlega engu um það.”

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinGULLI OG 4X4
  Næsta greinTOM JONES (81)