FLOTTASTI VEITINGAMAÐUR ÍSLANDSSÖGUNNAR

  Þegar ég útskrifaðist sem kokkur 1971 fór ég að vinna á fínu hóteli í Frankfurt í Þýskalandi
  í 5 mánuði. Þar heyrði ég í fyrsta skipti talað um einn frægasta og bezta hótelskóla
  í heimi sem heitir Cornell háskóli í Ithaka í New York fylki í Bandaríkjum. Fram
  að þeim tíma hafði ég bara heyrt um hótelskóla í Sviss.

  Þegar ég kom svo heim til Íslands og fór að spyrjast fyrir um þennan skóla komst ég að því að það hafði á þeim tíma einungis einn Íslendingur farið þangað í nám, Halldór S. Gröndal. Ég fór að spyrjast fyrir um hann og komst að því að hann hafði stofnað Naustið við Vesturgötu á sínum tíma en var hættur að stunda veitingastörf og var byrjaður að læra til prests í Háskóla Ísland. Ég hitti hann og síðar urðum við vinir eftir að ég gerðist meðhjálpari hjá honum í Grensáskirkju.

  Halldór S. Gröndal veitingamaður í Naustinu sem varð svo prestur.

  Ég kom stundum til hans og þá sagði hann mér ýmsar sögur frá Naustárunum. Ég er sannfærður um að hann er flottasti veitingamaður Íslandssögunnar. Hann fór til Ameríku 1948 eftir stúdentspróf úr Verzlunarskóla ísland og var þar í 4 ár streit. Hann ásamt fleirum opnuðu Naustið við Vesturgötu í nóvember 1954. Þetta var bylting í íslenskri veitingasögu. Fram að þeim tíma var Hótel Borg flottust en þarna kom eitthvað alveg nýtt með íslenskri sjávastemmingu og alþjóðlegan mat.

  Á Naustið í tíð Halldórs komu kóngar og forsetar erlendra ríkja og hélt Ásgeir Ásgeirsson forseti oft allskyns opinberar veizlur þar. Þegar nýjabrumið fór af og aðsóknin var ekki alltaf jafn mikil fór Halldór að velta fyrir sér hvað væri hægt að gera í daufustu mánuðunum sem voru janúar og febrúar. Og þá kom upp þessi hugmynd að höfða til fyrri tíma og selja eitthvað alíslenskt. Búa til stemmingu í stíl.

  Það var sem sagt í febrúar 1958 sem fyrsti hefðbundni þorramaturinn var boðin á veitingahúsi á Íslandi. Fram að þeim tíma höfðu hin ýmsu átthagafélög haldið svokölluð þorrablót en svona matur var hvergi seldur í venjulegu matvörubúðum.

  Þetta varð vinsælt og umtalað. Helgi Sæmundsson orti þessa vísu sem síðan var notuð í þorrablótsauglýsingar Nautsins:

  Inni á Nausti aldrei þver
  ánægjunnar sjóður.
  Þorramaturinn þykir mér
  þjóðlegur og góður.

  Ég held ég geti með góðri samvisku sagt að það sé séra Halldóri að þakka hversu algengur og vinsæll þorramatur er í dag. Blessuð sé minning hans.

   

  Auglýsing