FJARÐARHEIÐARGÖNG Á FÖLSKUM FORSENDUM

  Einar Þorvarðarson og ráðherrann: "Enginn meirihlutavilji fyrir því meðal Austfirðinga að byrjað verði á Fjarðarheiðargöngum."

  “Fram kom á fundi Sigurðar Inga samgönguráðherra á Reyðarfirði í fyrradag að hann og alþingi væru að vinna að undirbúningi við gerð Fjarðarheiðarganga, sem byrja á framkvæmdir við á næsta ári, í samræmi við óskir og vilja Austfirðinga. Þetta er á byggt á miklum misskilningi,” segir Einar Þorvarðarson verkfræðingur, búsettur á Reyðarfirði og umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi öllu um áratugaskeið. Hann ætti því að vera öllum hnútum kunnugur í þessu efni:

  “Við gerð umhverfismats fyrir Fjarðarheiðargöng setti Samgöngufélagið fram vel rökstuddar efasemdir um að þetta fengi staðist og óskaði formlega eftir því við Vegamálastjóra að kosta og láta gera skoðanakönnun meðal ibúa á Austurlandi um það hvaða jarðgöng ætti að velja sem fyrsta kost í hringtengingu þéttbýlisstaða á mið-Austurlandi. Þeirri beiðni var alfarið hafnað.

  Samgöngufélagið fékk því á sinn kostnað Gallup til að gera slíka könnun. Þar kom fram að 42,4 % íbúa vildi að byrjað yrði á göngum frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar, 37,9 % valdi Fjarðarheiðargöng og 19,8 % valdi göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og undir Mjóafjarðarheiði til Héraðs. Þannig er ljóst að það er enginn meirihlutavilji fyrir því meðal Austfirðinga að byrjað verði á Fjarðarheiðargöngum. Svo virðist sem ráðherra og alþingi hafi ekki borist þessar upplýsingar og blekkt þar með.

  Því er eðlilegt að spurt sé hvort ráðherra og alþingi séu að vinna að undirbúningi Fjarðarheiðarganga á fölskum forsendum og að staðið hafi verið ófaglega og óheiðarlega að að undirbúningi þessa verkefnis af þessum ástæðum og eins og skýrsla sem KPMG vann fyrir samgönguráðherra ber með sér.

  Auglýsing