“FALLEGASTA MYND SEM TEKIN HEFUR VERIÐ AF MÉR” – SJOKK!

  "Mér fannst ég lengi vel hafa svikið dauðann þennan dag."

  “18 desember 2020 var þessi mynd tekin af okkur mömmu, tíu mínútum eftir stærstu skriðu sem hefur fallið í fjölbýli á Íslandi. Þetta er fallegasta mynd sem hefur verið tekin af mér en á sama svo ótrúlega tilfinningaþrungin og erfið,” segir Jafet Sigfinsson á Seyðisfirði.

  “Ég, Dakota, pabbi og bróðir minn vorum heima þegar skriðan féll. Ég sá þegar skriðan byrjaði og stefndi beint á mig. Ég fór strax í sjokk. Faldi mig og grét með hundinn í fanginu af því ég vildi ekki deyja en sá enga aðra útkomu. Horfði á hús nágrannans bókstaflega springa.

  Mamma hinsvegar horfði á skriðuna falla úr fjarlægð, hjálparvana og viss um að hún væri að missa alla fjölskylduna. Hjartað mitt brotnar við tilhugsunina. Elsku mamma. Ég var fyrstur út úr húsinu og staðfesti fyrir henni að við lifðum þetta af á einhvern óskiljanlegan hátt.

  Skriðan féll sitthvorumegin við okkur og bókstaflega sleikti vesturhlið hússins. Þetta var lygilega tæpt. Mér fannst ég lengi vel hafa svikið dauðann þennan dag. Ég átti ekki að lifa þetta af en hér er ég samt enn, tæpu ári síðar, einhvernveginn.”

  Auglýsing