“FALLEG” – ÁSTARBLIK Í VESTURBÆ

  Þröstur á vettvangi. í Vesturbæ.

  “Til þín sem komst inn á Kaffivest áðan, horfðir yfir salinn í leit að sæti og fannst þú ekki finna það, fékkst þér vatnssopa, horfðir aftur beint í augu mér og gekkst svo út,” segir Þröstur Guðlaugsson en þar með var ekki öll sagan sögð:

  “Það var laust sæti en kannski varstu svona hógvær, og þegar ég fór út nokkru seinna sá ég að þú hafðir fengið þér sæti á bekknum fyrir utan kaffihúsið og gulur köttur hreiðraði um sig í kjöltu þinni.

  Þú horfðir aftur beint í augu mín og brostir.

  Á meðan ég var að föndra við hjólið mitt og tefja tímann áður en ég lagði af stað í Melabúðina þá hugsaði ég hvernig ég gæti vakið athygli þína eitt augnablik svo ég stoppaði fyrir framan þig á bekknum og sagði “falleg” eða eitthvað svoleiðis held ég, þú leist upp og síðan á köttinn og sagðir “já er hún ekki kósý”.

  Ég vildi bara koma því til skila að ég átti ekki við köttinn heldur þig.

  Ps. Eftir að hafa keypt mér hálfann kjúkling og Pepsímax í Melabúðinni og var á leiðinni heim þá ásótti mig hugsunin um að skrifa um þetta atvik en ég veit ekkert af hverju ég set þessar hugsanir fyrir almannasjónir en vanalega fara smásögurnar mínar beina leið í pappakassann hjá barnafötunum uppi á háalofti.”

  Auglýsing